Þessi færsla er sannkölluð ferð niður “memory-lane” en um þessar mundir eru 20 ár 😮 síðan ég hóf ferilinn sem vefhönnuður, fékk fyrstu “alvöru” vefverkefnin og fékk eiginlega algjöra vefhönnunardellu. Það var vorið 1999 en ég hafði verið að fikta við HTML forritun síðan 1997. HTML var þá afskaplega prímitívt, það var ekki fyrr en aðeins seinna að stílsnið (CSS) og dynamic html komu inn og gagnagrunnar og CMS (Content Management Systems) komu á eftir því. Þetta var tungumál nörda og ekki algengt að fyrirtæki væru yfirleitt með vefsíður. Nokkru áður, haustið 1998, var ég stödd á fyrsta árinu í sálfræði sem ég fann mig virkilega ekki í, og fann löngun til að sækja um í Listaháskólanum, sem þá hét reyndar Myndlista- og handíðaskóli Íslands. Ég skráði mig í fornámið haustið 1999 og komst svo inn í nýstofnaðan Listaháskóla eftir inntökupróf vorið eftir, og kláraði BA gráðu í grafískri hönnun árið 2003.

En samhliða skólanum og vinnu sat ég flesta daga og kvöld og nætur við að smíða vefsíðu, fyrir sjálfa mig. Þessi vefútlitsverkefni fylgdu mér í gegnum alla skólagönguna en ég fór reyndar afskaplega leynt með þau, en hugsaði upp ný layout og teiknaði þau upp í HTML skipanamálinu. Innihaldið var ekki upp á marga fiska – yfirleitt einhverskonar tenglasafn, einhver “goodies” til að búa til eitthvað kjöt á vefnum (desktop myndir í 800×600, icon og jafnvel winamp skin!.. 😀 já krakkar mínir, þetta var sælgætið í gamla daga), og svo líka teikningar og málverk sem maður hafði gert og fleira í svipuðum dúr. En áherslan og tilgangurinn með þessu þeim mun meiri á að prófa sig áfram með layout, liti, letur, myndir, javascript virkni, osfr. Að setja upp layout í photoshop (version 2.6 til að byrja með..), búta það niður og forrita, nokkur í hverjum mánuði. Það var ekki mikið pláss til að hanna, 800×600 pixla rammi og 9pixla letur var bara alveg sæmilega stórt og læsilegt. Tískan þarna í kringum 2000, áður en anti-aliasing kom á skjánum, var að hafa pixel letur, agnarsmátt, Verdana eða Arial. Veldu annaðhvort, ekkert google fonts í boði. Klassi.

1999:

Á þessu lærði maður margt á tæknilega sviðinu. Heldur betur. Árið 2000 kom Blogger til sögunnar (fyrir tíma blogspot) en þá var hægt að nota kerfið til að senda inn fréttafærslur á vefi hýsta utan kerfis og búa til eigin template utan um það. Mikið breakthrough! Þar var líka hægt að tengja saman notendur þannig að nokkrir aðilar gátu skrifað inn í sama kerfið og ég bjó til “teamblog” sem hét Cotton white, það átti að fjalla um hönnun af allskonar toga en varð ekki mikið úr því. Maaan,.. ef maður hefði byggt eitthvað meira utan um þessar hugmyndir.. EN þarna var allavega komið fréttakerfi og þá gat maður farið að bulla, og setja inn tengla á það sem manni þótti áhugavert á veraldarvefnum. Og flest af þessu innihaldi er nauða ómerkilegt, man ekki hvort ég hafi nokkuð skrifað af persónulegum vangaveltum, þetta snerist frekar um umgjörðina heldur en innihaldið. Árin 2001 og 2002 vann ég samhliða skóla í vefdeild Origo (hinu fyrra, fyrst reyndar hjá Rekstrarsviði TölvuMynda, sem breyttist í Skyggni, sem breyttist í Origo).

2000:

Bullið sem maður gat látið út úr sér… en jæja, höldum áfram:

2001:

Þetta jaðrar eiginlega við geðveiki…

2002:

2003:
Þarna var ég komin á þriðja og síðasta árið í LHÍ og flestir vissu af þessu hobbíi og ég var farin að vanda mig meira og búa til meiri karakter – hætt að bulla, þó svo bullið sé skemmtilegt á vissan hátt. Þarna voru líka komnir betri vefstaðlar og bættari stuðningur í vöfrunum, sem þó var mjög prímitívur. Kerfið sem ég notaði á þessum tíma hét Movable Type og var frábrugðið Blogger að því leyti að það var hægt að hýsa það á eigin vefþjóni. Eftir nokkur ár með MT skipti ég yfir í WordPress (2007 minnir mig) og hef notað það síðan.

Eitt þessara útlita rataði inn í bókina Web Design Index vol 4 sem var gefin út af Pepin Press árið 2005.

Árið 2004 var farið að hægjast á þessari framleiðslu þar sem fyrsti afkomandinn var að koma í heiminn og tíminn fór í annað. Svo fór ég líka að halda úti fleiri síðum, t.d. fyrir ungann litla (sem er 15 ára í dag) og svo portfolio fyrir tilvonandi vinnuveitendur, þar var líka reynt að hafa bullið í lágmarki. Ég hóf störf á auglýsingastofunni Mixa árið 2003 og vann þar fram til 2006 þegar Mixa sameinaðist PIPAR og ég flutti til Danmerkur í frekara nám. Það var frábær og lærdómsríkur tími.

2004:

2005:

2006:

Tæknin verður alltaf flóknari og það er tímafrekt að halda í við hana. Í dag eru flestir vefir gerðir í ýmsum vefumsjónakerfum, lokuðum eða open-source, sem gerir fólki með minni tæknikunnáttu kleift að viðhalda þeim og það er frábært, en á móti þá verður allt frekar einsleitt og gelt, vil ég meina. Þessi tilraunastarfsemi í vefhönnun, framsetningu efnis, forritun og tæknilegu grúski er eftir á að hyggja mjög verðmæt reynsla. Allir geta sett upp vefi með góðum vilja en reynsla og tilraunastarfsemi síðustu 20 ára, á frumárum vefsins, er ómetanleg.