Árið 2019 nálgast óðfluga og við fögnum því að sjálfsögðu. Nýtt ár þýðir ný tækifæri og ný markmið.

Dagatal 2019
Sýnishorn af dagatalinu
Fyrir nokkrum árum leitaði ég að einföldu en öflugu dagatali og þrátt fyrir að þau séu óteljandi mörg og flest afbragðsfalleg þá fann ég ekki það sem hentaði fyrir mig, þannig að ég ákvað að búa það til. Mig langaði nefnilega til að hafa gott pláss til að skrifa við hvern dag, hafa vikunúmer inni á og setja helstu dagsetningar (bóndadaginn og öskudaginn t.d.) inn á dagatalið.
Og afraksturinn var þessi, A4 blað fyrir hvern mánuð þar sem vikudagar eru í röðum og vikurnar í dálkum, vikunúmerin eru handhæg, svolítill textareitur fylgir hverjum degi – og helstu frídagar eru merktir inn á. Helgarnar eru neðst og vinnuvikan byrjar efst (reyndar hefst vikan almennt á sunnudegi en við flækjum það ekkert fyrir okkur).

Uppsetningin er óskaplega einföld og ekki verið að flækja neitt heldur ná að nota allt plássið fyrir skilaboðin sem þú vilt að fylgi hverjum degi en samt ná að hafa yfirsýn yfir mánuðinn.

Það er líka svart/hvítt sem þýðir að það prentast ágætlega út og þú getur skreytt það eins og þú vilt, getur blóma-mynstrað það í drasl ef það er þitt thing og notað litríka penna til að leggja áherslu á viðburði – etv getur hver fjölskyldumeðlimur haft sinn lit til að auðvelda yfirsýn.

Auðvitað máttu grípa þér eintak, sæktu PDF skjalið og prentaðu það út, nældu þér í klemmu af uppáhalds tegund og hengdu upp eða smelltu því í myndaramma annaðhvort með blöðin ofan á glerinu eða undir (og þá er hægt að skrifa á glerið með töflutúss). Njóttu og nýttu!

> Sækja dagatalið á PDF