Mörkun er íslenskt orð yfir enska heitið “branding” sem útleggst sem merking á eign til að aðskilja hana frá eignum annarra og er runnin frá þeim tíma sem húsgripir voru brennimerktir. Með mörkun er félagið, fyrirtækið eða vörumerkið aðskilið frá samkeppnisaðilum á sjónrænan, persónulegan og tilfinningalegan hátt. Með mörkun er búin til rödd sem á þátt í að skapa þær tilfinningar sem varan/þjónustan á að vekja í huga viðskiptavinar. Með mörkun er útbúinn aðlaðandi eiginleiki, sem nær út fyrir hið sjónræna svið, þannig að skilgreindur markhópur vill eiga samskipti, og viðskipti, við viðkomandi aðila. Við mörkun fyrirtækja þarf að skoða allar hliðar þjónustu þess og gæta að samræmi í því sem sagt er og þess sem raunverulega er gert.

Sjónræn hlið mörkunar er mjög mikilvæg. Merkið sjálft þarf að geta staðið eitt og sér í mjög einfaldri mynd og minna á þau gildi sem félagið stendur fyrir. Önnur grafík og sjónræn nálgun þarf að styðja við vörumerkið og það sem það stendur fyrir. Þrátt fyrir að vörumerkið geti þróast í tímanna rás er mjög mikilvægt að forsvarsmenn fyrirtækja haldi tryggð við gildin sín, söguna sem félagið er að segja og þrói það áfram en breyti því ekki tilviljanakennt eða að ástæðulausu. Verkefni hönnuða og markaðsfræðinga er að teygja og toga eftir því sem við á og hugmyndaflugið leyfir.

Markaðsherferð Doritos gengur út á að þeir ætli ekki að birta nafnið heldur segja að þess þurfi ekki. En þeir hafa áfram vísun í merkið í þríhyrningum. – (1) (2)

Það hvernig vara (eða fyrirtæki) er sett fram skiptir oftast sköpum varðandi lífvænleika hennar (þess). Það er nefnilega algengur misskilningur að “vara sé svo góð að hún selji sig sjálf”, það getur verið raunin í mjög þröngum markhópi en þegar hann stækkar þá getur góð markaðsvinna skilið á milli feigs og ófeigs. Mörkunin rammar inn vöruna þannig að útlit og framsetning sé í samhljómi við bakgrunn, gildi og markmið framleiðanda. Það er nauðsynlegt fyrir þá sem eru í forsvari fyrir fyrirtæki eða eru að reyna að selja vöru, að finna söguna sem félagið vill segja, röddina sem á að heyrast og finna flöt á þeim tilfinningum og væntingum sem félagið á að skapa í huga viðskiptavina sinna. Þegar þessi hljómur finnst þá er mikilvægt að fara vel með hann og styrkja, og muna að viðskiptavinur þinn sér lógóið þitt og markaðsefni ekki nærri því eins oft og þú. Þegar vel tekst til getur gott vörumerki orðið verðmætasta eign fyrirtækisins og sameinar bæði starfsmenn og viðskiptavini í þeirri sýn.