Nokkur síðustu ár hef ég sett upp dagatal til að prenta út og notað á heimilinu fyrir afmælisdaga og verkefnin framundan. Krakkarnir eru orðnir háðir þessu þar sem þau hafa kannski ekki alveg sama tækifæri til að kíkja í calendar í símanum og gott að hafa svona yfirlit til að horfa á yfir morgunverðarborðinu.
Hérna má finna dagatal fyrir 2022 sem þú getur prentað út í svarthvítu, smellt á það klemmu að eigin vali eða gatað og sett upp á vegg, eða í ramma og tússað ofan á með töflupenna ef þú vilt geta strokað út.
Það er hægt að setja hvað er í matinn hvern dag, með penna í öðrum lit til dæmis. Ef þú vilt fá útprentað eintak sent í pósti (og með svartri klemmu) þá kostar það 1500kr – þú mátt gjarnan senda mér póst og ég sendi það til þín í pósti. Á dagatalinu eru líka vikunúmer, frídagar og fánadagar og helstu atriði sem þarf að muna í desember.
Sparnaðarráð: Það er mjög krúttlegt að prenta í 50% stærð þannig að 2 mánuðir passi á eitt blað, skera í sundur eða bara hafa tveggja mánaða yfirsýn. Fyrir þá sem eru með A3 prentara og eru stórhuga í verki þá er líka möguleiki að prenta hvern mánuð flennistóran.
(ps. Ég veit að vikan byrjar á sunnudegi en það er alveg fatalt að klippa helgina í sundur þannig að í þessum heimi byrjar vikan á mánudegi).