Brúðkaup er ein af eftirminnilegri og dásamlegri stundum í lífi manns og oft á undirbúningur þeirra langan og spennandi aðdraganda. Það er mikill heiður að fá að taka þátt í undirbúningi og ásýnd brúðkaupa og þar með stærstu stundum í lífi fólks. Ég er mjög heppin að hafa fengið að “taka þátt” í nokkrum brúðkaupum, þó svo ég hafi reyndar bara farið einu sinni alla leið upp að altarinu! 😉

Brúðkaupsboðskort eru jafn misjöfn og þau eru mörg, eða eiga að vera það – af því þau eiga að fanga karakter brúðhjónanna og þá stemningu sem þau eru að fiska eftir að verði í veislunni. Sumir vilja hátíðlega stund þar sem allt er hreint og fullkomið, aðrir halda sveitabrúðkaup og gefa þá stemningu augljóslega til skila með boðskortinu. Skemmtilegast og algengast er að halda sömu línu í útliti prentefnis allt frá boðskorti, eða “takið daginn frá” korti sem færist sífellt í aukana, yfir í matseðla og annað prentefni í brúðkaupinu sjálfu – og svo jafnvel í þakkarkorti eða jólakorti eftir veisluna.

Hérna eru nokkur sýnishorn nokkrum brúðkaupsboðskortum og prentefni í veislum sem við höfum gert:

Rómantískt kort með vatnslituðum villtum blómum fyrir vini okkar sem giftu sig í sumar. Boðskortið var prentað á góðan óhúðaðan pappír og í veislunni voru sætamiðar með blómum á og gestabók í ramma (40×50) þar sem gestirnir skrifuðu nöfnin sín og lítil skilaboð til brúðhjónanna. Þau geta svo hengt gestabókina upp og eru minnt á dásamlegan dag og fólksins sem naut hans með þeim.

Stundum koma brúðhjónin með sérstakar óskir sem ég reyni eftir fremsta megni að uppfylla, þetta var mjög skemmtileg hugmynd að þema – að sýna stærðfræðiformúlu fyrir hjarta, þar sem brúðurin er stærðfræðikennari og brúðguminn sérfræðingur á sviði tölvuöryggismála. Segiði svo að stærðfræði sé ekki rómantísk! 🙂
Í veislunni var útbúinn stór teningur sem geymdi ýmsar þrautir og dægrastyttingu fyrir gestina og á hann var prentuð dagskrá veislunnar og matseðill ásamt öðrum upplýsingum.

Stundum þarf myndefni og texti að vera skiljanlegur á tveimur tungumálum og jafnframt sameina þessa ólíku hópa sem gestirnir eru. Hér er brúðguminn íslenskur og brúðurin sænsk. Boðskortið er eins á báðum hliðum fyrir utan tungumálin, sama á við um matseðilinn og sætavísuna.

Fallegt og fínlegt, boðskort í brúðkaup og matseðill.

Orðaleikur í skemmtilegu sveitabrúðkaupi; “Nú verðum við pússuð saman”. Á bakhlið kortsins var límd örk af sandpappír. Að innan er texti og á vængjunum kort sem vísar á sveitakirkjuna og svo á svæðið þar sem veislan var haldin. Gefur fyrirheit um létta og skemmtilega stemningu.